Flóki Invest á og rekur fasteignafélagið Flóki fasteignir ehf.

Flóki fasteignir

Langflestar eignirnar eru í útleigu. Flóki leigir til að mynda erlendum starfsmönnum Alvotech sem það kjósa íbúðir til lengri eða skemmri tíma á meðan fólk er að fóta sig í íslensku samfélagi.

Sumt starfsfólk Alvotech kemur til Íslands að vinna í skemmri tíma, jafnvel einu sinni til tvisvar í mánuði. Þá er mikilvægt fyrir Alvotech að hafa aðgang að íbúðum eða hótelherbergjum sem fólk getur gist í. Hefðbundið fyrirkomulag er á milli leigusala og leigutaka. Starfsfólk er ekki skuldbundið til að leigja af Flóka fasteignum heldur gefst kostur á því. Leiguverð er í samræmi við markaðsverð á leigumarkaði.

Þar sem lítil sérþekking var á Íslandi á líftæknilyfjaframleiðslu þegar Alvotech hóf störf hefur fyrirtækið ráðið inn sérhæft fólk erlendis frá. Mikil samkeppni er á alþjóða markaði eftir hæfileikaríku starfsfólki og því hefur það auðveldað ráðningarferli að starfsfólk fái íbúðir hratt og örugglega. Margt starfsfólk kemur hingað til lands með fjölskyldu sína og þá skiptir máli að vera nærri vinnustaðnum sem og skóla og annarri þjónustu en erfiðlega hefur gengið að fá viðeigandi íbúðir á markaði sem uppfylla þessar þarfir.

Því var mikilvægt fyrir uppbyggingu Alvotech að geta boðið starfsfólki aðstoð. Einn megintilgangur Flóka var að fjármagna fasteignaþörf Alvotech á Íslandi. Með uppbyggingu Alvotech verður til ný þekking á Íslandi sem samræmist markmiðum Flóka um að efla og styrkja vísindasamfélagið hér á landi til hagsbóta fyrir allt samfélagið.